top of page

Vegasalt

Text by Markús Þór Andrésson, independent curator

Sýning Önnu Rúnar veitir okkur áhorfendum innsýn í heim sem leitar jafnvægis. Hún sýnir verk sín í tveimur sölum þar sem áherslur eru á ólíka eiginleika listsköpunar; ferlið annars vegar og afrakstur þess hins vegar. Hér eru saman komnar teikningar af tvennu tagi, handunnar og sjálfunnar - ef svo má að orði komast. Einnig teikningar sem kallast á í uppbyggingu sín á milli, með áherslum upp og niður sem dæmi. Þá setur Anna Rún fram innsetningu sem er í stöðugri mótun á meðan á sýningunni stendur. Hún skapar vissar aðstæður með drjúpandi vatni og lit og kemur af stað lífrænni atburðarás. Sú atburðarás hverfist um jafnvægi tveggja hluta einnar og sömu teiknivélarinnar sem þurfa að kallast á til þess að geta viðhaldið hinu skapandi ferli. Innsetningin verður þannig að listrænni framvindu í stað endanlegrar niðurstöðu listsköpunar. Ef til vill má líta á slíkt sýningarferli með hliðsjón af leikhúsi eða gjörningalist, þar sem verkin verða í raun til frammi fyrir augum áhorfenda yfir afmarkaðan tíma.

Það leiðir hugann ennfremur að þeirri jafnvægislist sem fram fer milli verka og áhorfenda. Innbyrðis er sýning sem hafnar stakstæðum sannleika og kallar fram merkingu í virkri jafnvægisleit. Sú aðferð Önnu Rúnar að beina athygli áhorfenda að vinnsluferli yfir afmarkaðan tíma vegur upp á móti hugmyndum um að hún sem listakona hafi sett sér fyrirfram gefið markmið eða leitist eftir að miðla huglægri tjáningu. Verkin verða fyrir vikið opin okkur áhorfendum til túlkunar. Hringformið býður strax upp á hugmyndina um endaleysuna, hina eilífu hringrás, og þannig upplifir maður mörg verkanna, einkum innsetninguna í Gryfjunni. Hún byrjar hvar og hvenær sem er og endar jafnframt hvar og hvenær sem er. Umfang verksins mótast af viðveru hvers áhorfanda sem dvelur með því svo lengi sem þurfa þykir, hvort heldur með því að líta það augum ofan af stigapallinum eða með því að dvelja um stund, ganga í kringum verkið og taka inn hina hæglátu framvindu þess. Hringurinn er líka tákn um heild, eitt mengi, en tilurð hans í þessu tilviki er háð samleik tvenndar. Pörun eða endurtekning er gjarnarn sett fram til höfuðs hugmyndinni um hið staka, hina einu sönnu merkingu en aðferðin getur einnig virkað sem undirstrikun og ítrekun. Flöskuparið sem vegar salt á sitt hvorum enda rárinnar birtist okkur hér í senn samtímis sem heildstæður skúlptúr en jafnframt sem víxlverkun andstæðra póla og stangast þannig á við miðlæga og staka hugmynd. Endurtekning er í raun hálfgerð blekking.

 

John Cage hélt því til dæmis fram að ef við héldum að verið væri að endurtaka eitthvað þá væri það alla jafna vegna þess að við veittum smáatriðum ekki næglega athygli „En ef við grannskoðum hlutina rétt eins og við værum að skoða allra smæstu hluti í smásjá, þá liggur í augum uppi að ekkert er til sem heitið getur endurtekning.“ (un Í verki Önnu Rúnar eiga þessi orð vel við. Þar er búið að forrita ákveðið ferli sem endurtekur sig í sífellu en hver fasi ferlisins skilur eftir sig ný spor sem hafa mismunandi afleiðingar. Yfir lengri tíma eru áhrifin þeim mun ljósari.

Teikningin sem tekur á sig mynd á gólfinu kallar á athygli og þar dettur maður auðveldlega inn í smáheim saltkristalla og litbrigða, rétt eins og í smásjá. Afrakstur ferlisins teiknar sig svo að segja sjálfkrafa og kann því að virka fjarlægari listamanninum en verkin sem Anna Rún hefur dregið upp með eigin hendi í Arinstofu. En svo aftur sé vitnað í Cage, þá er um "stýrt ferli tilviljana" að ræða. Bæði í tónsmíðum sinni og myndlist treysti Cage á tilviljun en forsendurnar vildi hann sjálfur ákvarða. Listsköpun snerist að hans mati um að spyrja réttu spurninganna, miklu fremur en að fá fyrirfram gefnar niðustöður. Anna Rún setur verk sín fram á þessum nótum, hún sýnir okkur ferlið og allar forsendur þess - þar liggur hennar áhugi - en leyfir okkur einnig að njóta afraksturins. Anna Rún hefur verið að prófa sig áfram með teikningu á vinnustofu sinni og á undangengnum sýningum.Hún notast við blek eða vatnslit sem er leystur upp í nokkru magni af vatni og látinn drjúpa á pappír. Við uppgufun vatnsins taka eðlisfræðilegir eiginleikar litarefnisins völdin og raðast upp í mislita hringi út frá miðjupunkti. Með því að bæta salti inn í jöfnuna opnast nýjar víddir í hegðun efnisins. Nær ógerningur er að sjá fyrir endanlega útkomu eða stýra henni því svo margir ófyrirséðir þættir hafa áhrif. Sambærilega aðferð og jafn óstýrláta hefur Anna Rún prófað sig áfram með í skúlptúr, þar sem hún hnoðar salti í miðjan leirklump og eftirlætur eðlisfræðilegri framvindu fullvinnslu verksins. Saltið dregur í sig rakann í leirnum og þurrkar hann innan frá í stað hefðbundinnar uppgufunar að utan. Eftir að hafa þaulskoðað hinar heillandi myndir og form sem aðferðafræðin hefur skilað beinir Anna Rún nú athygli sinni og okkar að verkferlinu eins og innsetningin í Gryfjunni ber með sér.

 

Sem hreyfanlegur skúlptúr eru samt sem áður áþekkir eiginleikar merkjanlegir þar og í hinum innrömmuðu verkum. Mannslíkaminn er gjarnan þema í verkum Önnu Rúnar þar sem hún skoðar sérstaklega leiðir til tjáningar og skynjunar. Þau minna okkur á að samskipti byggja í grunninn á líkamlegum eiginleikum og hæfni þótt stundum sé engu líkara en skilningur manna á milli sé á yfirskilvitlegu plani. Þegar verk hennar eru skoðuð með þessa áherslu í huga leitar maður ósjálfrátt uppi hið líkamlega. Innsetning hennar sem byggist á drjúpandi vökva úr flöskum hefur óneitanlega læknisfræðilegar skírskotanir sem ýta undir þær hugmyndir auk taktvissrar hegðunar, líkt og verkið andi. Það er þó óábyrgt að leiða hugann um of í ákveðna átt, því sem fyrr segir er fyrst og fremst um opin verk að ræða sem við áhorfendur megum túlka að vild. Ánægjan ein yfir því að fylgjast með því furðulega og áhugaverða ferli sem er í gangi er næg umbun í sjálfu sér. Innbyrðis er allt í senn sýning á skúpltúrum og teikningum, gjörningur, dansverk og kennslustund í eðlisfræði.

Markús Þór Andrésson

bottom of page